Hagnaður N1 á þriðja fjórðungi ársins nam 724,4 milljónum króna, samanborið við 931,6 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Heildarhagnaður fyrstu níu mánaða ársins nam á þessu ári 1.469,7 milljónum króna, en var á sama tíma í fyrra 1.329 milljónir.

Sala dróst nokkuð saman á árinu, fór úr 18,4 milljörðum króna á þriðja fjórðungi í fyrra í 15,9 milljarða króna á þriðja fjórðungi þessa árs og fór úr 45,3 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum í fyrra í 39,3 milljarða á sama tíma í ár. Framlegð af vörusölu stóð því sem næst í stað þegar þriðji fjórðungur er skoðaður og nam rúmum þremur milljörðum, en jókst úr 7,5 milljörðum á fyrstu níu mánuðum síðasta árs í ríflega 7,8 milljarða í ár. Í tilkynningu til kauphallar segir að minnkandi rekstrartekjur skýrist að stærstum hluta af lækkandi olíuverði, en það lækkaði um 19%-31% á þriðja fjórðungi og um 13,9% á fyrstu níu mánuðum ársins.

Handbært fé frá rekstri fyrstu níu mánuði þessa árs nemur 3,4 milljörðum króna, en var 2,7 milljarðar króna á sama tíma í fyrra, en handbært fé lækkaði um 1,3 milljarða króna, m.a. vegna lækkunar hlutafjár upp á tæpa þrjá milljarða króna. Eigið fé N1 nam í lok tímabilsins 8,9 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall var 40,1%. Arðsemi eiginfjár á fyrstu níu mánuðum ársins var 20,7%, en var 12,5% á fyrstu níu mánuðum síðasta árs.