Síðastliðið sumar hækkuðu tollar í Bandaríkjunum á svartar ólívur frá Evrópusambandinu og hefur tollheimtan bitnað illa á spænskum ólívubændum. Á fréttavef BBC segir að tekjur af ólívurækt í Andalúsíu á Spáni hafi dregist saman um 3,2 milljarða króna vegna tollanna og útflutningur á ólívum frá Spáni hafi minnkað um 60% frá árinu 2017 þegar hann nam rúmum átta milljörðum króna.

Tollarnir voru settir á eftir að bandarískir ólívuframleiðendur kvörtuðu til stjórnvalda yfir því að evrópskar ólívur væru seldar þar vestra á verði sem væri 70% undir markaðsverði. Bandarísk stjórnvöld settu af stað rannsókn sumarið 2017 sem svo varð til þess að tollar voru hækkaðir verulega í fyrra. Rannsóknum vegna meintra brota í milliríkjaviðskiptum hefur fjölgað verulega eftir að Trump tók við embætti forseta, en slík mál voru þrefalt fleiri fyrstu tvö ár forsetatíðar hans en á sama tímabili í tíð Obama.

BBC segir þær raddir háværar sem fullyrði að ólívutollarnir séu aðeins táknrænir og settir í yfirskyni. Raunverulegt markmið bandarískra stjórnvalda sé árás á sameiginlega landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins sem niðurgreiði framleiðslu í landbúnaði. „Ólívur eru tilfallandi en heppileg ástæða til þess að gagnrýna stefnu landbúnaðarstefnuna og grafa undan þeim stuðningi sem Sambandið veitir bændum,“ hefur BBC eftir Steve Suppan, aðalgreinanda Institute for Agriculture and Trade Policy.

Málið verður tekið fyrir á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. BBC segir að ef Sambandið tapi málinu muni það opin dyr fyrir holskeflu málaferla gegn evrópskum landbúnaðarafurðum.