IKEA hefur ákveðið að lækka verð á öllum vörum sínum um að meðaltali 3,2%. IKEA hefur ekki hækkað verð í verslun sinni síðan árið 2012 og raunar hefur verðið samtals lækkað um 22,5% síðustu fjögur árin, að teknu tilliti til verðbólgu, þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu í dag.

Að sögn Þórarins Ævarssonar, framkvæmdastjóra IKEA á Íslandi, mun verðið þó lækka enn frekar haldi krónan áfram að styrkjast. „Hver og ein einasta vara lækkar í verði og það finnur enginn vöru hjá okkur sem er ekki ódýrari en í síðasta vörulista.“

Engin skynsöm rök fyrir því að lækka ekki verðið

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því að við ákváðum að lækka vöruverðið í IKEA. Krónan hefur styrkst og þetta er því það eina rétta í stöðunni. Það eru engin skynsöm rök fyrir því að lækka ekki verðið. Lækkun olíuverðs á heimsvísu hefur dregið úr framleiðslu- og flutningskostnaði, allir hagvísar eru hagfelldir og búist við auknum hagvexti. Það ríkir einfaldlega áður óþekktur stöðugleiki hér á landi. Þar fyrir utan er kakan að stækka – túrismi er mikill allt árið og flestöll fyrirtæki finna fyrir því. Það liggur við að það seljist meira af öllu. Hér áður fyrr veiktist gengið alltaf á haustin en það gerðist ekki í fyrra í fyrsta skipti“ segir Þórarinn. „Þessi styrking hefur aukið hagnað allra fyrirtækja. Öll verslun í landinu getur lækkað verð. Það er hægt að hagnast of mikið og ef ekki er brugðist við því með því að lækka verðið, þá er maður hreinlega að undirbúa jarðveginn fyrir keppinauta til að bjóða betra verð,“ segi Þórarinn.

Sparnaður fyrir heimilin – 1% kortaveltu í landinu í IKEA

Í tilkynningu frá félaginu kemur jafnframt ra að velta IKEA á Íslandi er um 10 milljarðar sem þýðir að verðlækkunin sem nú tekur gildi nemur rúmum 300 milljónum króna. „Það eru mjög margar fjölskyldur sem versla hjá okkur og það munar um þetta. Við erum með um 1% allrar kortaveltunnar í landinu. Þetta mun sérstaklega skipta miklu máli fyrir ungt fólk sem er að stofna heimili, en það er hópur sem verslar hlutfallslega mikið hjá okkur. Við göngum einnig út frá því að lægra vöruverð auki veltuna á móti þar sem fólk mun þá versla enn frekar hjá okkur,“ segir Þórarinn.

Hyggjast fjölga starfsfólki og hækka laun umfram samninga

IKEA ætlar að fjölga starfsfólki sínu á næstunni en fyrirtækið hefur í þrígang hækkað laun starfsmanna um 5% umfram það sem samið var um. Að sögn stjórnenda hefur það skilað sér í mun minni starfsmannavelta . „Við viljum borga fólki meira og halda því, þar sem það er afar dýrt að missa starfsfólk,“ segir Þórarinn. „Það er reglulega hringt í fólkið okkar og því boðin akkorðsvinna í ferðaþjónustu, t.d. fólki með meirapróf sem boðið er að fara að keyra rútu. Þá viljum við að fólkið hafi góða ástæðu til að afþakka og vera hjá okkur áfram.“