Öllu starfsfólki Pressunnar hefur verið sagt upp störfum og útgáfa landshlutablaða fyrirtækisins stöðvuð að því er kemur fram í frétt RÚV . Haft er eftir Ómari R. Valdimarssyni, nýjum stjórnarmanni í Pressunni, að tveimur launamönnum hjá Pressuni hafi verið sagt upp störfum og þeir leystir undan frekari vinnuskyldu. Ný stjórn tók við Pressunni á föstudag en samkvæmt Ómari er rekstrur allra blaðanna til sölu.

Indíana Hreinsdóttir, ritstjóri Akureyri Vikublaðs til tveggja ára, greinir frá því á Facebook-síðu sinni að blaðið hafi verið lagt niður.  Ómar segir það vera ofmælt og blaðið hafi ekki verið lagt niður heldur hafi útgáfan verið stöðvuð að sinni. Hann segir jafnframt að fjárhagsstaða fyrirtækisins líti ekki út fyrir að vera góð og gripið sé til þessa ráðstafana til að koma í veg fyrir að skuldir hlaðist upp og kröfuhöfum og viðskiptavinum sé ekki valdið meira tjóni en þegar hafi gerst.

Stjórn Pressunnar býst við að fá eitt tilboð í dag í Akureyri Vikublað, Austurland, Reykjanes, Suðra, Vesturland, Vestfirði, Ölduna og Sleggjuna. Auk þeirra blaða rekur Pressan einnig landshlutablöðin Birtu, Hafnarfjörð, Kópavog og Reykjavík Vikublað en Ómar segir að komi ekki tilboð í rekstur þeirra lendi þau í gjaldþrotaskiptum.

Eignarhald Pressunnar er í höndum sjö félaga. Stærstan hlut á Eignarhaldsfélagið Dalurinn ehf. eða 68,27% en Dalurinn er í jafnri eigu fimm manna, þeirra Árna Harðarsonar, Vilhelms Róberts Wessmann, Jóhanns G. Jóhannssonar, Halldórs Kristmannssonar og Hilmars Þórs Kristinssonar. Þá á FÓ eignarhald 0,40% í Pressunni en það félag er í eigu Fannars Ólafssonar.

Björn Ingi Hrafnsson á ríflega 18% hlut í Pressunni gegnum félög sín Kringluturninn, Kringlueignir, AB11 og AB10. Loks á Arnar Ægisson 13,3% en hann er 50% hluthafi í Kringluturninum, AB11 og AB10.