Öllum helstu umferðaræðum til höfuðborgarinnar hefur verið lokað og er ekki búist við því að vegirnir opni aftur fyrr en í fyrsta lagi klukkan 11 meðan mjög kröpp lægð fer yfir landið. Er búist við því að veðrið verði sem verst á milli 9 og 10 í dag í höfuðborginni, en veðrið mun taka fljótt yfir. Hér má sjá vindakort í beinni .

Öllu morgunflugi Air Iceland Connect, gamla Flugfélags íslands, til og frá Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði hefur verið frestað, og verða næstu upplýsingar veittar um klukkan 11:30. Sama á við um Keflavíkurflugvöll, en vélar í millilandaflug sem áttu að fara í morgun munu í fyrsta lagi leggja í hann á bilinu ellefu til hálf tvö í dag.

Jafnframt hafa strætóleiðir út úr borginni verið felldar niður, það er leiðir 51, 52, 55, 57, 71, 72, 73, 75, 88 og 89. Skólahald hefur víða verið fellt niður, þar á meðal á Kjalarnesi og Selfossi, en á síðarnefnda staðnum hefur verið ákveðið að fella niður kennslu í Fjölbrautarskólanum.

Vegagerðin gerir ráð fyrir eftirfarandi lokunum á suðvesturhorninu í dag að því er segir á vef Vísis :

  • Suðurlandsvegur um Hellisheiði og Þrengsli milli kl. 06:00 og 12:00 – 13:00
  • Vesturlandsvegur um Kjalarnes milli kl. 08:00 og 11:00
  • Vesturlandsvegur um Hafnarfjall milli kl. 07:00 og 11:00
  • Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði milli kl. 06:00 og 12:00 – 13:00
  • Reykjanesbraut milli kl. 07:00 og 11:00
  • Grindavíkurvegur milli kl. 07:00 og 11:00
  • Suðurstrandarvegur milli kl. 07:00 og 11:00