Orkuveita Reykjavíkur hefur ráðið Ólöfu Snæhólm Baldursdóttur í starf upplýsingafulltrúa. Ólöf var ein 125 umsækjenda um starfið og mun hún einkum starfa fyrir Veitur, dótturfyrirtæki OR.

Ólöf hefur starfað hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg í rétt tæpan áratug sem upplýsinga- og kynningarfulltrúi. Ólöf lauk prófi í fjölmiðlafræði við Ohio University í Bandaríkjunum 1993 og las til meistaraprófs í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.

Ólöf hefur störf í byrjun júní og verður jafnframt staðgengill Eiríks Hjálmarssonar, upplýsingafulltrúa OR.

Eins og fyrr segir eru Veitur dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirtækið rekur hitaveitu, rafveitu, vatnsveitu og fráveitu á höfuðborgarsvæðinu sem og á Suður- og Vesturlandi.