Deilt er um það hvort Ríkisútvarpið hafi farið að lögum um þjóðsöng Íslands í dagskrárkynningu á heimsmeistaramótinu í fótbolta, en þar var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fengin til þess að lesa ljóðlínu úr honum.

Katrín telur að fyrirhuguð notkun hafi ekki stangast á við lög, en forsætisráðuneytið hefur að fengnum fyrirspurnum tekið það til athugunar hvort endanleg notkun efnisins hafi verið í trássi við bókstaf eða anda laganna. Ríkisútvarpið lítur svo á að birting á myndskeiði með upplestri á texta þjóðsöngsins sé dagskrárkynning og þjóðleg hvatning en ekki auglýsing.