Félag atvinnurekenda dregur ekki í efa réttmæti þessi að fyrirtæki greiði gjöld, sem standa undir kostnaði sveitarfélaganna af þjónustu við þau, en telur þetta skattaumhverfi ekki geta gengið lengur, Þetta kemur fram í erindi félagsins til fjármálaráðherra, þar sem segir að sveitarfélög sæki sér óeðlilegar hækkanir á skatttekjum til fyrirtækja með ógegnsæjum, ósanngjörnum og ólögmætum hætti.

Er ráðherra eindregið hvattur til þess að taka upp viðræður við sveitarfélögin um hvernig koma megi þessari gjaldtöku í lögmætt, gegnsætt og skynsamlegt horf. Vísar FA meðal annars í viðtal við Bjarna , sem birtist í riti Frjálsrar verslunar, 300 stærstu, fyrir áramót.

„Þótt hækkun fasteignamats haldist stundum í hendur við hækk un tekna þá er engin trygging fyrir því að svo sé,“ sagði Bjarni í viðtalinu og bætti því við að full ástæða væri til að skoða þetta. „Ef við ætlum að breyta þessu þá þarf að gera það í samhengi við tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga,“ sagði ráðherrann.

Fagnar FA þessum ummælum ráðherra. „Skattbyrði fyrirtækja vegna fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði hefur þyngzt mjög á síðustu árum,“ segir í erindinu. „Þannig voru fasteignagjöld á á atvinnuhúsnæði á landinu öllu rétt tæpir 16 milljarðar árið 2014. Á síðasta ári voru þau tæplega 23 milljarðar. Sjö milljarða króna hækkun á fjórum árum samsvarar um 44% hækkun, sem er langt umfram verðlagsþróun eða önnur skynsamleg viðmið. Oft og iðulega er ekkert að gerast í af komu eða greiðslugetu fyrirtækjanna sem auðveldar þeim að standa undir sífellt þyngri skattbyrði.“

Sveitarfélögin svara ekki

Í erindinu bendir FA á að samkvæmt greinargerð með lögum um tekjustofna sveitarfélaga eiga fasteignagjöld ekki að vera eignaskattur heldur endurgjald fyrir veitta þjónustu. Í því sambandi bendir félagið á það geti ekki kostað, til dæmis Reykjavíkurborg, minna að þjónusta fyrirtæki á Kjalarnesi en í Kringlunni.

FA bendir enn fremur á að samkvæmt lögum hafi sveitarfélög heimild til að beita 25% álagi á álagningarprósentu fasteignagjalda og að langflest þeirra nýti sér þessa heimild og leggi 1,65% gjald á atvinnuhúsnæði í stað 1,32%.

„Óljóst er samkvæmt lögunum við hvaða skilyrði sveitarfélögum er heimilt að beita álaginu,“ segir í erindinu. Í því kemur jafnframt fram að FA hafi sent sveitarfélögum erindi, þar sem farið er fram á kostnaðarútreikninga vegna álagningar fasteignagjalda, sem og rökstuðningi fyrir beitingu 25% álagsins.

„Skemmst er frá því að segja að engin efnisleg svör hafa fengizt við þessum fyrirspurnum frá neinu sveitarfélagi,“ segir í erindinu til ráðherra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .