Manneldi er í samkeppni við fiskeldi um omega 3 fitusýrur og eftirspurnin eykst með hverju árinu. Hefðbundin lýsisframleiðsla nær ekki að sinna eftirspurninni og því hefur framleiðsla með þörungarækt bæst við. Bundnar eru vonir við þriðju stoðina í framleiðslu á omega 3 fitusýrum sem er með erfðabreyttum plöntum. Fjórða stoðin gæti orðið veiðar á svifdýrum, átu og smáfiskategundum og hafa Norðmenn þegar hafið tilraunir í þá vegu. Á alþjóðavísu veltir iðnaðurinn milljörðum bandaríkjadala.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að omega 3 fitusýrur hafa jákvæð áhrif á hjarta- og æðakerfi mannsins. Þær geta lækkað blóðfitu og unnið hefur verið öflugt, blóðfitulækkandi lyf sem er á markaði úr efnabreyttum omega 3 fitusýrum úr fiski. Rannsóknir hafa einnig sýnt að omega 3 fitusýrur hafa jákvæð áhrif á heilaþroska ungra barna og munur hefur mælst á greindarvísitölu barna sem neyta að staðaldri lýsis og þeirra sem ekki gera það. Þá eru vísbendingar um að omega 3 fitusýrur geti mögulega dregið úr tíðni ákveðinna krabbameina og dregið úr bólgum hjá gigtarsjúklingum.

Hörður G. Kristinsson, rannsókna og nýsköpunarstjóri hjá Matís og einn sérfræðingur stofnunarinnar á sviði omega 3 fitusýra, segir að löng hefð sé inntöku lýsis á Íslandi. Á áttunda áratugnum voru gerðar rannsóknir á Ínúítum á Grænlandi til að komast til botns í því hvers vegna þeir fengju síður hjarta- og æðasjúkdóma en aðrir menn. Niðurstöður þeirra rannsókna urðu til þess að vakning varð í öllum heiminum fyrir neyslu á fiski og lýsi.

Sprenging í neyslu

„Á árunum 2008 til 2014 varð sprenging í neyslu omega 3 fitusýra í takt við hollustubyltinguna sem farið hefur um heiminn. Í ákveðnum flokkum varð 20-40% vöxtur í neyslunni á milli ára. Omega 3 fitusýrur voru á þessum árum líka mikið notaðar í íblöndun markfæðis. Í Bandaríkjunum varð sprenging í framboði á vöru sem inniheldur omega 3. Fitusýrurnar er að finna í jafn ólíkri vöru eins og sælgæti, jógúrti, brauði, pasta svo eitthvað sé nefnt. Nú hefur dregið úr þessum vexti og hann er jafnari,“ segir Hörður.

Heildarveltan af framleiðslu hráolíu úr fiski í heiminum er nú um 2,5 milljarðar dollarar, eða sem samsvarar tæpum 260 milljörðum króna á ári. Veltan margfaldast síðan þegar tekin eru inn í myndina fæðubótarefni og lyf unnin úr fiskolíu sem og markfæði og hleypur þá á tugum milljarða dollara á ári.

Omega 3 eru fjölómettaðar fitusýrur sem haldast fljótandi við lágt hitastig. Þær er að finna í miklu magni í lifur bolfiska en einnig í frumuhimnum. Þorskur lifir við mjög köld skilyrði og kæmist ekki af nema vegna omega 3. Fitusýrurnar er hins vegar ekki að finna í holdi bolfiska nema í frumuhimnum. Í holdi uppsjávartegunda er á hinn bóginn mikið magn omega 3 fitusýra. Fyrirtækið Margildi stendur þar sterkt að vígi og hefur þróað sérstaka aðferð til að vinna kaldhreinsað lýsi úr uppsjávartegundum.

Fiskar framleiða ekki omega 3

„Fiskar framleiða ekki sjálfir omega 3 fitusýrur heldur þurfa þeir borða aðrar sjávarlífverur til þess að verða sér úti um þær. Það sama á við um manninn. Hann þarf að borða fisk eða aðrar sjávarlífverur sem innihalda omega 3 fitusýrur. Þessar sjávarlífverur eru smáþörungar og áta, ljóstillífandi lífverur. Þær  framleiða omega 3 fitusýrur sem síðan færast upp í fæðukeðjunni. Aðrar gerðir omega 3 fitusýra finnast líka í ákveðnum plöntum, eins og t.d. repju, sem líklega hafa ekki eins jákvæð áhrif og omega 3 fitusýrur úr fiski. Þær tegundir sem við höfum mestan áhuga á eru EPA og DHA,“ segir Hörður.

Hann segir Ísland í einstakri stöðu þegar kemur að framleiðslu á omega 3 fitusýrum. Töluvert af því hráefni sem notað er í fjöldaframleiðslu á omega 3 í heiminum sé af lökum gæðum, til að mynda tegundir eins og sardínur, og þurfi að fara í gegnum mikið hreinsunarferli til þess að úr verði góð vara. Hráefnið sem berst að landi hér sé hins vegar í mjög háum gæðum. Það má þakka vinnsluferlum sem hafa verið þróaðir, t.a.m. hraðkælingu, blóðgun og fleira.

Hann segir mjög vaxandi eftirspurn eftir omega 3 fitusýrum innan fiskeldisins og nú er svo komið að samkeppni er brostin á í eftirspurn til manneldis og fiskeldis. Í Bandaríkjunum sé notkun til manneldis og fiskeldis til að mynda jöfn. Eldisfiskur verður að fá omega 3 í sínu fóðri þar sem hann hefur ekki aðgengi að sjávarlífverum sem framleiða efnið. Stöðugur vöxtur er í fiskeldi í heiminum og greinin verður matarkista mannkyns þegar fram líða stundir. Þess vegna eykst þörfin fyrir omega 3 með hverju ári sem líður. Af þeim sökum er erfitt að sjá fyrir sér að hægt verði að sinna eftirpurninni einungis með framleiðslu úr sjávarlífverum. Hörður segir að enn sé kostnaðarsamara að vinna omega 3 úr þörungum en úr fiski. Þessi kostnaður hafi þó lækkað á undanförnum árum.

„Á Íslandi eru þrjú fyrirtæki sem framleiða smáþörunga, þar af tvö sem einungis sækjast eftir astaxantín andoxunarefninu. Ísraelska fyrirtækið Algaennovation á Hellisheiði er að hefja framleiðslu á smáþörungum sem eru mjög ríkir af omega 3. Markmiðið er að nýta þörungana til að bæta út í frumfóður fyrir klakstöðvar í fiskeldi.“

Hörður segir Ísland hafa mikla sérstöðu þegar kemur að framleiðslu omega 3 úr þörungum og í einstakri aðstöðu til að byggja upp stóran iðnað í kringum þá grein. Þar nýtist jarðhitinn, mikill aðgangur að vatni og ódýrari orka en víðast hvar annars staðar.

Matís hefur veitt fyrirtækinu ráðgjöf og þjónustu og ráðgert er að framleiðslan hefjist á næsta ári. Verksmiðjan er í samstarfi við Orku náttúrunnar og nýtir orku og jarðhitavatn frá orkuverinu á Hellisheiði til þess að rækta mikið magn af smáþörungum.

Hörður segir að umtalsverðar rannsóknir hafi farið fram erlendis á erfðabreytingum á plöntun með það að markmiði að þær framleiði sömu omega 3 fitusýrur og er að finna í sjávarlífverum.

Omega 3 úr erfðabreyttum plöntum

„Margir telja að framtíðin í framleiðslu á omega 3 fitusýrum verði í formi smáþörunga og erfðabreyttra plantna. Takmörk eru fyrir því hve mikið er hægt að framleiða úr sjávarlífverum. Ítarlegar rannsóknir þurfa að fara fram á öryggi, gæðum og virkni omega 3 fitusýra úr erfðabreyttum plöntum  áður en þær eru settar á markað. Einnig má gera ráð fyrir að neytendur verða mismóttækilegir fyrir omega 3 fitusýrum úr erfðabreyttum lífverum óháð öryggi og virkni þeirra.“

Hörður segir mikla umræðu vera í gangi um þessar mundir innan fræðasamfélagsins að hafnar verði rannsóknir á nýtingu á svokölluðum mesopelagískum tegundum, sem lifa fremur djúpt í millilagi sjávar. Þarna er um að ræða rauðátu og ýmsar smávaxnar fisktegundir, eins og t.d. laxsíld, sem er til í fyrirfinnst í miklu magni og ekki er nýtt. Sumar af þessum tegundum eru æti fyrir aðrar tegundir en Hörður segir að fyrstu rannsóknir bendi til þess að þarna sé um að ræða gríðarlegan lífmassa af mjög próteinríkum og í sumum tilvikum einnig fituríkum tegundum.

„Það þyrfti að hefja skoðun á því að nýta þennan lífmassa bæði til matvæla- og fóðurframleiðslu. Þarna gæti verið ný uppspretta af omega 3 fitusýrum. Lífmassi af þessum tegundum er mikill, til dæmis í hafinu milli Íslands og Noregs. Norðmenn eru að fara í gang með miklar áætlanir um að rannsaka þetta millilag í hafinu. Vandamálið með þessar tegundir er hins vegar það að það þyrfti að vinna hráefnið mjög hratt sem krefst mikillar tækni og vinnsluþekkingar til að gera vel. Rauðátu yrði að vinna um leið og hún kæmi um borð til að framleiða hágæða vörur og hið sama ætti við um margar aðrar af þessum tegundum sem margar eru með mjög hárri ensímvirkni sem gerir það að verkum að þær sjálfmeltast á skömmum tíma. Framleiðslan yrði því að fara fram úti á hafi varðandi flestar tegundir nema ef það tækist að „stabílesera“ hráefnið um leið og það kemur um borð.“