*

fimmtudagur, 13. desember 2018
Innlent 29. nóvember 2017 15:51

„Ómerkilegt og lítt grundað samtal“

Björgólfur Thor segir einhverja ástæðu hljóta að vera fyrir að ákveðið var að bjarga Kaupþingi en ekki Landsbankanum í hruninu.

Ritstjórn
Björgólfur Thor Björgólfsson.

Björgólfur Thor Björgólfsson, fjárfestir segir á heimasíðu sinni um símtal Davíðs Oddssonar þáverandi seðlabankastjóra, og Geirs H. Haarde þáverandi forsætisráðherra, að þar hafi örlög bankanna verið ráðin út frá tilfinningu fyrir því hvað sérfræðingar J.P.Morgan bankans sögðu daginn áður.

„Þetta var öll fagmennskan!,“ segir Björgólfur Thor um ástæðu þess að ákveðið var að lána Kaupþingi en ekki Landsbankanum dagana sem fjármálakerfið hrundi á haustdögum ársins 2008, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum hefur símtal Davíðs og Geirs í aðdraganda lánveitingar Seðlabankans til Kaupþings verið birt.

„Þar var forsætisráðherra eflaust að vísa til erlendra sérfræðinga, sem voru nýkomnir til landsins og höfðu skimað yfir bankalandslagið. Ekki bera þessir „Morgan menn“ ábyrgð á þeirri ákvörðun sem tekin var? Hún virtist tekin af því að „það slær mig þannig sko“!“

Landsbankinn vildi minni fjárhæð fyrir traustari veð

Björgólfur Thor segir að Landsbankinn hafi boðið traustari veð, eða að andvirði 2 milljarða evra, fyrir minna lán, eða 300 milljónir evra, heldur en 500 milljóna evru lánið sem Kaupþing fékk.

„Þar af var 1 milljarður í evrópskum ríkisskuldabréfum og 500 milljónir í íslenskum ríkisskuldabréfum, auk 500 milljóna evra í skuldabréfum frá íslenska lífeyrissjóðakerfinu. Allt eignir sem ekki rýrnuðu í hruninu.“

Hefði afstýrt milliríkjadeilu

Björgólfur rifjar upp niðurstöðu bókar sinnar, Billions to Bust and Back, um að ástæðan fyrir að Kaupþingi var lánað en ekki Arion banka hafi verið eingöngu pólítísk en ekki fagleg. Hann veltir þó fyrir sér hver ástæðan hafi verið á sama tíma og hann segir Landsbankann hafa þurft minni fjárhæð og verið með traustari veð.

„Fyrir utan þá staðreynd, að lán til Landsbanka hefði runnið beint til Seðlabanka Bretlands, milliríkjadeilu hefði verið afstýrt og íslenska þjóðin losnað við háværar deilur, hræðsluáróður og nær 22 þúsund Icesave-fréttir, frá hruni Landsbankans og fram að dómi EFTA-dómstólsins í janúar 2013 – og þúsundir frétta til viðbótar frá þeim tíma til dagsins í dag,“ segir Björgólfur Thor.

„En hvert rann gjaldeyrisforðinn, sem Kaupþing fékk? Geir H. Haarde sagði sjálfur fyrir Landsdómi að féð hefði farið „annað en það átti að fara“ og enn hafa ekki fengist fullnægjandi skýringar.

Það er líka rétt að taka fram, að stærstu hluthafar Landsbankans lýstu því yfir við stjórnvöld að þeir væru reiðubúnir að gefa eftir sína stöðu og veita hverja þá aðstoð sem óskað væri eftir, svo bjarga mætti bankakerfinu. Engin viðbrögð fengust við slíkum hugmyndum, en á sama tíma ákváðu menn að leggja allt sitt traust á Kaupþingsmenn.“

Segir hann þjóðina hafa rétt á að vita hvað skýrði þessa ákvörðun, og það hljóti að vera til í fórum forsætisráðherra, eða forsætisráðuneytisins eitthvað minnisblað eða annað eftir Morgan mönnunum svokölluðu.