Forsvarsmenn upplýsingatæknifyrirtækisins Omnis og GreenQloud undirrituðu á UT-messunni á föstudag samstarfssamning sem mun vonast er til að muni ýta enn frekar við tölvuskýjavæðingu hér á landi. Með samningnum getur Omnis boðið viðskiptavinum sínum skýjaþjónustur, sem byggja á GreenQloud-tölvuskýinu, og tekið að sér uppsetningu og rekstur tölvukerfa í skýinu. Omnis mun einnig veita viðskiptavinum GreenQloud tækniaðstoð ef þekking til að nýta sér möguleika þjónustunnar er ekki fyrir hendi.

Fram kemur í tilkynningu frá GreenQloud að samstarfið geri íslenskum fyrirtækjum kleift að lækka verulega kostnað við rekstur  innviða upplýsingatækni kerfa og setja þess í stað áherslurnar á þær hugbúnaðar lausnir sem í raun skapa virði í rekstri fyrirtækja.