Ómögulegt er að verða fyrir sjálfstæða endurskoðendur að starfa á Íslandi, að sögn Eymundar Einarssonar endurskoðanda. Ástæðan er sú að lögum um endurskoðun var breytt í upphafi árs 2010 með þeim hætti að ekki er lengur hægt að stunda endurskoðun „samkvæmt góðri endurskoðunarvenju“ heldur þarf þess í stað að gera það í samræmi við „alþjóðlega staðla um endurskoðun“.

Stóru endurskoðunarstofurnar á borð við PwC, KPMG, Deloitte og Ernst & Young hafa aðgang að erlendum gæða- og upplýsingakerfum sem gerir þeim kleift að uppfylla nýjar kröfur laganna. Það hafa sjálfstæðir endurskoðendur hins vegar ekki.

Stofna samstarfsvettvang

Til að bregðast við þessum breytingum stofnuðu Eymundur og átta aðrir endurskoðendur nýverið saman endurskoðunarfyrirtæki, ÍS-endurskoðun ehf., sem er ætlað að verða eins konar samstarfsvettvangur minni stofa. Tilgangurinn er að geta uppfyllt kröfur laganna auk þess sem samtakamátturinn gefur þeim tækifæri til að taka að sér stærri verkefni. Starfsemin er ekki farin af stað en búið er að stofna félagið og unnið er að undirbúningi.

Staðan erfið

Eymundur segir stöðu sjálfstæðra endurskoðenda vera orðna afar erfiða. Hann segir það nánast ómögulegt fyrir þá að starfa hér á landi eins og aðstæður eru orðnar. „Lýsandi dæmi er til dæmis það að ef mamma þín væri gjaldkeri hjá kirkjusjóði og vildi fá sjóðinn endurskoðaðan þá þyrfti hún að kaupa 40 tíma pakka til að fullnægja þeim formlegu gæðakröfum sem lögin kalla á. Þetta er orðið mjög erfitt og það er lögbundið að þetta sé svona. Þessi gamla endurskoðunarvenja er ekki lengur til. Auðvitað þurfa fyrirtæki á markaði gagngera endurskoðun. En það má ekki gleyma öðrum kúnnum, litlum og millistórum fyrirtækjum, sem þurfa á þjónustu endurskoðenda að halda. Þeir kúnnar eru margir og maður heyrir það hjá mörgum þeirra að þeir hafi gefist upp á stærri stofunum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.