Tillaga um framkvæmdir í Perlunni og breytta nýtingu hennar verður tekin til umræðu í borgarráði í dag. Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg, segir það liggja fyrir að borgin muni ekki selja Perluna.

Í stað þess sé lagt til að milligólf verði byggt í Perlunni til að fjölga fermetrum og auka þannig hagkvæmni byggingarinnar. Í mars 2013 skrifaði borgin undir samning við menntamálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið um að leigja Perluna undir sýningu á vegum Náttúruminjasafns Íslands. Samningnum var hins vegar ekki fylgt eftir með framlögum á fjárlögum. Hrólfur segir að í tillögunni sem lögð verður fyrir borgarráð í dag sé það lagt til að Hið íslenska náttúrufræðifélag gangi til liðs við Reykjavíkurborg um að koma með sýningu inn í Perluna í stað Náttúruminjasafnsins.

„Hugmyndin er þá að fá líka inn heimspekinga og listafólk. Síðan verði einkaaðili sem er tilbúinn til þess að fjármagna sýninguna og fá þá allan að- gangseyrinn, og Reykjavíkurborg verði bara leigusali hússins,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .