Næst stærsti olíuframleiðandinn meðal OPEC ríkjanna er jafnframt sá sem svindlar mest á framleiðslutakmörkunum þeim sem samtökin hafa samið um. Á fyrsta ársfjórðungi ársins framleiddi Írak um 80 þúsund olíufötum fleiri heldur en um hafði verið samið. Náði Írak einungis 61% af áætluðum takmörkunum á fyrsta ársfjórðungi, en hins vegar náði ríkið 90% af markmiðum sínum í apríl.

Olíuverð 5% undir markmiði

Verð á Brent hráolíu, er nú 54,12 Bandaríkjadali á fatið, en fyrr í mánuðinum fór verðið niður fyrir 50 dali þegar gögn sýndu að með hækkandi verði í kjölfar framleiðslutakmarkana Opec ríkjanna, hefðu olíulindir í Bandaríkjunum sem nýta bergbrotstækni farið á fullt í framleiðslu.

Er verðið því enn um 5% undir því verði sem náðist strax og tilkynnt var um samkomulag Opec ríkjanna sem og Rússlands um framleiðslutakmarkanirnar.

Lítill hvati til að standa við samkomulag

Ef samkomulag Opec ríkjanna og Rússlands verður framlengt til ársins 2018, mun Írak hafa enn minni hvata til að standa við skuldbindingarnar því nú er verið að stækka olíuvinnslusvæði í suðurhluta landsins sem og eftir því sem betur verður ágengt gegn hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu í norðri nást fleiri olíusvæði þar á ný undir stjórn ríkisins.

Jafnframt hefur baráttan við hryðjuverkasamtökin aukið gífurlega við skuldir ríkisins, svo ólíklegt er talið að Írakar standi við það að draga úr olíuframleiðslu sinni um 210 þúsund föt á dag. Harry Tchilinguirian, ráðgjafi hjá BNP Paribas SA, segir að Íraksstjórn muni líklega ekki vilja þann fórnarkostnað sem felst í því að nýta ekki alla þá innviði sem það er að byggja upp.

Gríðarlegar skuldir hlaðast upp

Opec ríkin virðast að því er Bloomberg fréttastofan greinir frá, líta í gegnum fingur sér með brot Írak á samningunum, en landið hafði óskað eftir undanþágu meðan á samningaviðræðunum stóð. Jafnframt er óljóst hve mikið sé framleitt á svæðunum sem eru undir stjórn Kúrda, sem ekki hafa gefið upp framleiðslutölur sínar mánuðum saman.

Er talið að ríkið hafi ekki staðið vð meira en 61% af markmiði sínu um 210 þúsund fata samdrátt í framleiðslu, niður í 4.351 milljón föt á dag. En fleiri ríki hafa ekki náð markmiðum um minni framleiðslu, má þar nefna Rússland og Sameinuðu arabísku furstadæmin, sem náðu aðeins 57% af markmiðum sínum á fyrsta ársfjórðungi.

Þó verður að hafa í huga að í apríl mánuði náðu samningsaðilarnir 96% af markmiðum sínum, sem er met, því hingað til hafa ríkin aldrei náð meira en 80% af markmiðum sínum. En nú er mun meira í húfi fyrir OPEC ríkin og önnur olíuframleiðsluríki eins og Rússland, því vægi þeirra hefur minnkað og ríkin eru í síauknum mæli að nýta lánsfé til að greiða fyrir framúrkeyrslu ríkisfjármála.