Fyrir um sex mánuðum síðan gerðu OPEC ríkin með sér samkomulag um að draga úr framleiðslu á hráolíu líkt og áður hefur verið greint frá. Þá var sett viðmið að dregið yrði úr framleiðslu ríkjanna um 32,5 milljónir fata á dag fram til júní þessa árs. Fyrir tæpum mánuði síðan funduðu OPEC ríkin á nýjan leik og tilkynntu um framlengingu á samkomulaginu til loka mars á næsta ári.

Í Hagsjá Landsbankans er vísað til þess að á að bandaríska upplýsingastofnunin um orkumál (e. EIA) bendir á að það gangi hægar að draga úr framleiðslunni en vænst var. Í kjölfar framlengingarinnar hefur stofnunin lækkað framleiðsluspá sína og spáir að framleiðsla í OPEC-ríkjunum verði að meðaltali 32,3 milljónir fata á dag í ár og 32,8 milljónir fata á næsta ári.

Einnig er gert ráð fyrir því að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum aukist talsvert. Áætlað er að framleiðslan í Bandaríkjunum hafi verið að meðaltali 8,9 milljónir fata á dag í fyrra. Orkumálastofnunin í Bandaríkjunum spáir því að framleiðslan verði að meðaltali 9,3 og 10 milljónir tunna á dag í ár og á næsta ári. Gangi spáin fyrir næsta ár eftir nær framleiðslan vestanhafs sögulegu hámarki en hún fór áður hæst í 9,6 milljónir tunna á dag árið 1970.

„Í spánni er gert ráð fyrir að samkomulagið um minni framleiðslu vari lengur en út mars á næsta ári, en svo byrji að fjara undan því á síðari hluta ársins. Án frekari framlengingar samkomulagsins frá þriðja fjórðungi næsta árs, væntir stofnunin þess að birgðir aukist meira. Hún gerir ráð fyrir að meira framboð af olíu í Bandaríkjunum og OPEC-ríkjum auki birgðastöðuna á næsta ári, aðallega á öðrum fjórðungi. Vegna þessa er spáin fyrir Brent hráolíuverð lækkuð fyrir árið 2018. Samt sem áður gæti verðið eitthvað hnikast upp á við á seinni helmingi næsta árs ef spá stofnunarinnar um minni birgðastöðu gengur eftir og/eða markaðsaðilar vænta frekari samdráttar í birgðastöðu á árinu 2019. Framleiðslan er frekar næm fyrir breytingum á olíuverði og hærra verð á olíu seinni hluta ársins gæti aukið framleiðsluna árið 2018 - að því gefnu að það taki um 6 mánuði fyrir verðbreytingu að hafa áhrif á framleiðslu,“ er einnig tekið fram í Hagsjánni.

Því gætu væntingar um aukna framleiðslu og þar af leiðandi auknu framboði á næsta ári átt þátt í að lækka olíuverð síðustu mánuði þessa árs og í byrjun næsta árs.