Norska hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software hefur undirritað nýjan samning við Advania vegna umsvifa fyrirtækisins í gagnaveri Advania í Hafnarfirði. Samningurinn felur í sér liðlega 60% aukningu á umsvifum Opera Software í Advania Thor gagnaverinu, sem þjónar meðal annars 300 milljónum notenda Opera Mini-vafrans í tölvum, snjallsímum, sjónvörpum og öðrum nettengdum tækjum. Í gagnamagni er internetumferð viðskiptavina Opera Software  í Advania Thor gagnaverinu áþekk allri annarri internetumferð á Íslandi.

Í tilkynningu frá Advania er haft eftir Gesti G. Gestssyni, forstjóra fyrirtækisins, að íslensk gagnaver séu atvinnugrein í örum vexti. Gagnaverin geti skapað þjóðinni miklar gjaldeyristekjur. Hann bendir á að í dag séu um 60% af tekjum Advania og um 80% af veltu Advania Thor gagnaversins vegna erlendra verkefna.

Drög að stækkun gagnaversins

Advania hýsir í dag um 1300 netmiðlara fyrir Opera Software og felur nýi samningurinn m.a. í sér hýsingu á tæplega 800 miðlurum til viðbótar. Orkuþörfin vegna  umsvifa Opera Software í Advania Thor gagnaverinu svipar til þeirrar orku sem þarf fyrir 700 íslensk heimili eða 2-3 þúsund manna bæjarfélag. Starfsemi gagnaversins hefur aukist mjög að umfangi síðast liðna 18 mánuði. Fjöldi viðskiptavina hefur þrefaldast og húsnæði versins hefur verið tvöfaldað úr 3 þúsund fermetrum í 6 þúsund. Lögð hafa verið drög að enn frekari stækkun gagnaversins á næstu misserum ef  reksturinn heldur áfram að aukast.