Forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tekur undir með Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðgjafa, að það komi vel til greina að breyta til í ríkisstjórninni. Þetta kemur fram á RÚV .

Sigmundur segir alla ráðherra ríkisstjórnarinnar hafa staðið sig vel en að æskilegt geti verið að fá ný sjónarhorn inn í ráðuneytin. Þessi ummæli koma í kjölfar þess að fjármálaráðherra sagði fyrir helgi í Morgunútvarpinu á Rás 1 að vel kæmi til greina að gera breytingar á samstarfi stjórnarflokkanna á næstu mánuðum. Sagði hann að til greina kæmi að hreyfa til, bæði milli flokkanna og innan ríkisstjórnarinnar. Sigmundur Davíð tekur í svipaðan streng.

„Við ræddum það þegar stjórnin var mynduð og höfum nokkrum sinnum rætt þetta í millitíðinni að það gæti verið æskilegt á einhverjum tímapunkti að fara í einhverskonar uppstokkun. Það má þó ekki bíða of lengi með það ef það á að verða því að það tekur ráðherra alltaf einhvern tíma að komast inn í nýjan málaflokk. Það hefur hins vegar engin ákvörðun verið tekin um slíkt og engar ákveðnar engar tilteknar breytingar verið ræddar hvað þetta varðar,“ sagði Sigmundur.

Engar breytingar verða þó gerðar á embætti forsætisráðherra og fjármálaráðherra.