*

sunnudagur, 17. febrúar 2019
Erlent 22. janúar 2018 10:28

Opna búðarkassalausa verslun

Amazon hefur opnað búðarkassalausa verslun þar sem nemar fylgjast með því hvaða vörur viðskiptavinir velja.

Ritstjórn
Jeff Bezos, stofnandi og forstjóri Amazon.
epa

Netverslunarrisinn Amazon opnar í dag fyrstu búðarkassalausu verslun sína undir vörumerkinu Amazon Go að því er kemur fram á The Wall Street Journal.

Verslunin virkar með þeim hætti að viðskiptavinir grípa einfaldlega þær vörur sem þeir vilja og eru svo rukkaðir sjálfkrafa fyrir þær. Þegar viðskiptavinurinn gengur inn í verslunina er hann beðinn um að skanna símann sinn en þegar hann gerir það fá myndavélar sem staðsettar eru í versluninni boð um að fylgjast með hreyfingum hans. Myndavélarnar með aðstoð reiknirita og annarrar tækni nema svo hvaða vörur þessi tiltekni viðskiptavinur velur.

Amazon stefndi að opnun verslunarinnar fyrir næstum því ári en erfiðara reyndist að þróa tæknina fyrir verslunina en áætlanir gerðu ráð fyrir og því tafðist opnunin. Óvíst er hvort og þá hvenær fleiri Amazon Go verslanir opna en viðmælendur The Wall Street Journal segja erfitt sé að útfæra tæknina á víðari grunni og í stærri verslunum.