Stefnt er að því að opna Nespresso verslun í Kringlunni 1. desember næstkomandi. Verslunin verður þar sem Topshop hefur verið um árabil. Netverslunin opnar fyrr, eða í nóvember. Þetta kemur fram í ViðskiptaMogganum í dag.

Jónas Hagan, einn eigenda Vörðu Capital sem mun eiga 75% hlut í félaginu Perroy ehf. sem er nýstofnað rekstrarfélag Nespresso á Íslandi, segir að þetta hafi verið langt ferli sem er komið vel á veg. Hann tekur fram að allt verði komið í fullan rekstur í febrúar eða mars þegar fyrirtækjaþjónustan verslunarinnar verði opnuð.

Margir Íslendingar eiga Nespresso kaffivélar sem löngum hafa verið seldar í raftækjaverslunum. Það hefur þó reynst þrautinni þyngra að nálgast kaffihylki í vélarnar. Gert er ráð fyrir því að verslunin geti boðið verð sem verður lægra en í Bandaríkjunum, en verðið verður sennilega aðeins dýrara en á meginlandi Evrópu að sögn Jónasar.