Stefán Broddi Guðjónsson forstöðumaður greiningardeildar Arion banka segir verðbreytingar á hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum í dag vera helst af tvennum ástæðum.

„Í fyrsta lagi er um að ræða afleiðingar af viðbrögðum bæði á gjaldeyris- og skuldabréfamarkaði," segir Stefán og vísar í veikingu krónunnar frá í morgun.

„Það er ekkert fráleitt að það styðji við hlutabréfamarkaðinn, stór fyrirtæki sem eru að mestu leiti með sína starfsemi erlendis eða eru þannig sett að veikari króna geri sjóðstreymi þeirra meira virði því hún sé í erlendri mynt, eru að styrkjast."

Hins vegar segir hann að horfa megi til jákvæðra langtímaáhrifa af breytingunum á gjaldeyrisreglum sem taka gildi á morgun.

„Erlendar fjárfestingar eru þó enn litlar til dæmis í samanburði við nágrannalöndin," segir Stefán sem segir þær þó hafa verið byrjaðar í einhverjum mæli.

„En ef það gerist að erlend félög geta farið að fjárfesta hérna án þess að þurfa að fara í gegnum gula miðann og þá skriffinssku og eftirlit sem þessu hefur fylgt, þá verður hægt að líta á íslensk fyrirtæki í meiri mæli sem alþjóðlegan fjárfestingarkost.

Nú geta erlendir aðilar farið að fjárfesta hér á landi en varist á sama tíma gjaldeyrisáhættu með framvirkum samningum, sem opnar Ísland fyrir auknum fjárfestingum.“

Stefán segir að skuldabréfamarkaðurinn undanfarið hafi virst horfa lengra fram í tímann heldur en var fyrir kannski um 10 árum síðan þegar hann sveiflaðist mjög reglulega í öfugu hlutfalli við gengi krónunnar.

„En nú eru menn að kaupa verðtryggt því þeir sjá þessa miklu veikingu krónunnar í dag," segir Stefán.

„Það er þó ekki mikil velta á bak við þetta.“

Gengi krónunnar ræður miklu um þróun verðlags, það er því eðlilegt að skuldabréfamarkaðurinn og verðbólguálag þróist í takti við gengi krónunnar.“