Tafir verða á áætlaðri opnum nýs fimm stjörnu lúxushótels við Bláa lónið og verður það því ekki opnað fyrr en í byrjun næsta árs að sögn Gríms Sæmundsen forstjóra fyrirtækisins. Í upphafi var stefnt að því að í hótelinu yrðu ríflega 60 herbergi, meðal annars nokkrar svítur sem yrðu búnar einkalónum að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Framkvæmdin í sjálfu sér er á áætlun en vegna breyttrar þarfagreingar, meðal annars vegna gríðarlegrar fjölgunar ferðamanna, ákváðum við að breyta verkefninu nokkuð og það kallar eðlilega á ákveðnar tafir,“ segir Grímur en Verktakafyrirtækið Jáverk sér um framkvæmdina.

„Til lengri tíma litið teljum við það skila meiri tekjum að ráðast með réttum hætti í framkvæmdina miðað við breyttar forsendur og því trufla tafirnar og hinn aukni kostnaður okkur ekki.“