Eigendur KAPP ehf. véla-, kæli- og renniverkstæðis, hjónin Freyr Friðriksson og Elfa Hrönn Valdimarsdóttir, keyptu á síðasta ári fyrirtækið Optimar Ísland ehf. og tóku við rekstri fyrirtækisins í byrjun síðasta sumars.

Í byrjun þessa árs hófst undirbúningur að sameiningu beggja fyrirtækjanna og er sú sameining í ákveðnum farvegi. Með sameingu þessara tveggja félaga verður til öflugt fyrirtæki á sviði véla-, kæli og verkstæðisþjónustu sem og í sölu og framleiðslu á OPTIM-ICE ísþykknivélunum fyrir sjávarútveginn.

,,Við fengum starfsfólkið í lið með okkur, fórum í nafnasamkeppni og nýtt sameinað félag mun heita Optimar KAPP ehf. Við erum afar þakklát með þann árangur sem við höfum náð í okkar rekstri og gerum okkur grein fyrir því að við stækkunina á fyrirtækinu þarf að passa vel upp á viðskiptavinina, starfsfólkið og framtíðarsýnina,” segir Elfa. Alls starfa 27 starfsmenn hjá sameinuðu félagi.

,,Við höfum undanfarin ár fjárfest í innviðunum og nýjum framleiðslutækjum og hefur véla og renniverkstæði okkar því verið styrkt til muna á sínu sviði. Þetta ásamt kæli- og frystiþjónustunni hefur klárlega skapað okkur ný tækifæri og styrkt okkar rekstur. Að þessu upptöldu má ekki gleyma vörumerkjunum sem Optimar KAPP selur og þjónustar hér á landi en þar má einna helst nefna kæli-, frysti- og vinnslubúnað frá Optimar Stette og Havyard MMC í Noregi. Fyrirtækið selur líka Carrier kæli og frystivélar á bíla og vörukassa ásamt því að vera umboðsaðili Schmitz Cargobull hér á landi," segir Freyr.

Að sögn Freys og Elfu fer nýtt ár vel af stað og hefur fyrirtækið nú þegar gengið frá sölu á þremur ísþykknivélum til Noregs ásamt því að hafa nýlega afhent tvær ísþykknivélar hér á landi.