Ný vörulína frá Ora, kölluð, Iceland´s Finest, sem inniheldur vörurnar Creamy Masago Bites, Crunchy Caviar Bites og Rich Langoustine Soup, var valin sem vörulína ársins á sjávarútvegssýningunni í Brussel sem fram fer í vikunni.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu, en árlega stendur sjávarútvegssýningin í Brussel fyrir vali á bestu nýju vörum ársins. Allar vörurnar voru sérstaklega prófaðar og metnar af fagmönnum og innkaupafólki úr smásölu og stóreldhúsageiranum auk þess sem sérfræðingar í nýjum matvörum lögðu mat sitt á þær.

Tilkynnt var um vinningshafa við hátíðlega athöfn á þriðjudagskvöldið í sýningarhöllinni í Brussel. Sjávarútvegssýningin í Brussel er sú allra stærsta í heiminum á þessu sviði.

Iceland´s Finest vörulínan eru forréttir sem byggja eingöngu á íslensku hágæða hráefni og gerir fólki kleift að útbúa bragðgóða og girnilega sjávarforrétti með afar einföldum og fljótlegum hætti segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

„Þetta er mikil viðurkenning fyrir okkur hjá ORA en við erum að keppa mörg af stærstu fyrirtækjum heims með sjávarafurðir um athygli á vörunýjungum og við stöndum skrefinu framar en þau,” segir Jóhannes Egilsson útflutningsstjóri hjá ORA stoltur og ánægður með viðurkenninguna.

„Í mínum huga endurspeglar þessi viðurkenning kraft, þor og metnað hjá eigendum ÍSAM/ORA á að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða og taka næsta skref í þróun og markaðssetningu á okkar frábæru afurðum. Á undanförnum tveimur árum höfum við lagt mikla vinnu í vöruþróun og vörumerkjauppbyggingu sem hefur skilað okkur frábærri vöruhugmynd sem byggir á hágæða vörum unnum úr íslenskum sjávarafurðum.”

Nýja vörulínan frá Ora, Iceland´s Finest
Nýja vörulínan frá Ora, Iceland´s Finest
© Aðsend mynd (AÐSEND)