Í fyrsta sinn í sögunni hefur Orðabók Oxford valið emoji-mynd sem orð ársins. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem orð ársins er ekki orð - í allra þrengsta skilningi orðsins 'orðs'.

Emoji gæti túlkast sem einskonar tákn, eða myndyrði (e. pictograph). Á sama hátt voru híeróglýfur fornegypta svokölluð myndyrði. Einhver vafi hlýtur því að ríkja um hvort emoji-tákn geta flokkast sem orð eður ei.

Emoji-inn sem varð fyrir valinu er þessi broskarl sem virðist skemmta sér svo konunglega að hann bæði grætur og hlær.

Þessi sérstaki emoji var valinn vegna vinsælda sinna á samskiptamiðlum og í skilaboðum fólks.

Ástæðan fyrir valinu var sú að táknið er þýðingarmikið tjáningarform í samskiptaveröld nútímans, sem er mjög skyndileg, myndræn og byggir á tilfinningalegti tjáningu.

Meðal annarra orða sem tilnefnd voru má nefna:

  • Ad blocker (Forrit sem lokar á netauglýsingar)
  • Brexit (samsett úr Britain og exit, notað í umræðu um úrsögn Bretlands úr ESB)
  • Dark web (Sá hluti internetsins sem aðeins er aðgengilegur gegnum sérstakt forrit)
  • Lumbersexual (Borgarbúi sem klæðir sig meðvitað eins og skógarhöggsmaður, fagurfræðinnar og tískunnar vegna)
  • On fleek (Lýsingarorð yfir eitthvað gott eða vel útlítandi)