Víðir Arnar Kristjánsson, framkvæmdastjóri og löggiltur fasteignasali hjá Domusnova fasteignasölu, segir að heilt yfir þegar horft sé yfir allt landið, þá séu nokkur markaðssvæði sem eru með góða virkni fyrir sérbýli og fasteignir almennt.

„Virkustu markaðssvæðin eru höfuðborgarsvæðið, Hveragerði, Selfoss, Suðurnesin, Akureyri og Akranes. Á öðrum svæðum eru aðstæður öðruvísi, verðin eru lægri og eftirspurnin mun minni. Við höfum fundið fyrir því að eftirspurn eftir sérbýli hefur aukist mikið í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og verðið hefur farið hækkandi. Við erum sem dæmi með útibú á Selfossi og salan þar hefur gengið mjög vel og þá sérstaklega hvað sérbýli varðar."

Telur sérbýli eiga meira inni

„Verðþróun á sérbýli og fjölbýli hefur nokkurn vegin haldist í hendur. Miðað við hvernig þróunin hefur verið finnst mér þó eins og sérbýli eigi meira inn en fjölbýli. Hækkanir á verði sérbýlis koma oft fram síðar heldur en hjá fjölbýlinu. Hækkanirnar byrja í ódýrari eignunum og koma svo síðar fram í eignum sem eru dýrari.

Við höfum tekið eftir því að núna á höfuðborgarsvæðinu eru dýrari sérbýli að seljast hraðar en áður. Þó að verðið fari yfir 100 milljónir þá er kaupendahópur til staðar sem sýnir áhuga. Sá hópur er þó minni en flestir aðrir kaupendahópar, en eftirspurnin eftir þessum eignum er klárlega til staðar. Fyrir einu til tveimur árum síðan var mjög erfitt að selja eign ef verð hennar fór yfir 100 milljónir, en það hefur breyst og í dag er orðið auðveldara að selja þessar eignir. Hverfi skipta einnig máli og í vinsælum hverfum hefur gengið mjög vel að selja sérbýli sem kosta 100 milljónir eða meira," segir Víðir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .