Það sem bitcoin gefur, tekur bitcoin til baka. Það virðist í hið minnsta satt þegar kemur að Winklevoss tvíburunum sem urðu milljarðamæringar eftir að hafa fjárfest hluta af sáttagreiðslum frá Mark Zuckerberg, stofnanda Facebook, í rafmyntinni. Frá þessu er greint á vef Bloomberg.

Bræðurnir hafa tapað töluvert á lækkun bitcoin að undanförnu en á miðvikudag fór gengi myntarinnar niður fyrir 10.000 dali. Miðað við þá stöðu hafa þeir tapað 443 milljónum dala hvor á lækkunarfasanum sem staðið hefur yfir meira eða minna frá jólum. Þeir eru þó ekki á flæðiskeri staddir því hvor um sig á enn 739 milljónir dala samkvæmt milljarðamæringalista Bloomberg.

Rafmyntin hefur þó hækkað aftur undanfarna tvo daga og fæst hver bitcoin nú á 11.640 dali, þegar þetta er ritað og ef þróunin heldur þannig áfram verða þeir aftur orðnir milljarðamæringar innan skamms.