Samkvæmt fréttaveitu Bloomberg, íhuga stjórnendur Deutsche Bank AG og Commerzbank AG að mynda einn evrópskan ofurbanka. Samkvæmt heimildum Bloomberg eiga fundir að hafa farið fram í ágúst.

Á þessum umrædda fundi eiga forsvarsmenn bankana að hafa ákveðið að einbeita sér fyrst að því að endurskipuleggja fyrirtækin, áður en lengra yrði haldið. Deutsche Bank og Commerzbank eru stærstu bankar Þýskalands og myndi samruni þeirra leiða til þess að einn evrópskur ofurbanki yrði til.

Rekstur fyrirtækjanna hefur gengið brösuglega eftir hrun. Líkur eru á því að Deutsche Bank verði rekinn með halla í ár, á meðan hagnaður Commerzbank mun dragast saman.

Núverandi vaxtaumhverfi og íþyngjandi reglugerðir hefur almennt séð gert bönkum erfiðara fyrir. Samruninn myndi leiða til mikillar hagræðingar og yrði á sama tíma talsvert samkeppnishæfari.