Túnfiskveiði í heiminum hefur staðnað og stofnar vinsælustu undirtegundanna eru nú annað hvort full- eða ofnýttir. Framtíð greinarinnar veltur að miklu leyti á því að þróa árangursríkt túnfiskeldi. Þetta kemur fram í nýrri sjávarútvegsskýrslu Glitnis.

Túnfiskur er í fjórða sæti hvað varðar heildarvirði heimsviðskipta með fiskafurðir. Helstu markaðir með túnfisk eru í Bandaríkjunum, Evrópu og Japan, en túnfiskur finnst í öllum meginhöfum og er vinsæl sjávarafurð um allan heim. En Spánverjar eru sú þjóð sem neytir hlutfallslega mests túnfisks, eða 3,3 kíló á mann á ári.

Verð og framboð er mjög mismunandi á milli undirtegunda. Eftirspurn eftir niðursoðnum túnfiski fer dvínandi á meðan ferskur túnfiskur, einkum sá sem borinn er fram hrár (sashimi), vinnur á í Evrópu og Bandaríkjunum, segir í skýrslunni.

Túnfiskstofnar heimsins eru nú meira og minna fullnýttir og hefur takmarkað framboð hækkað verð sumra sjaldgæfustu tegunda bláugga (e. bluefin tuna) það mikið að neytendur eru vart tilbúnir né færir um að greiða það.

Í skýrslunni segir að bláuggi er verðmætasta tegundin þegar litið er á verð fyrir hvert veitt kíló. Þar sem stofnar allra þriggja undirtegunda bláugga eru nú full- eða ofnýttir, er framtíð viðskipta með tegundina háð þróun á árangursríku fiskeldi.

Túnfiskeldi fer vaxandi. Árið 2005 nam eldisfiskur 0.5% af heimsframboði á túnfiski og voru Spánn, Ástralía , Mexíkó og Króatía helstu frumkvöðlar framleiðslunnar. Helstu eldistegundirnar eru bláuggi úr Atlantshafi, Kyrrahafi og Suðurhöfum, og er söluvirði þessara tegunda einnig hæst. Eldistúnfiskur er feitari og af betri gæðum en villtur túnfiskur og selst því á mjög háu verði.

Nánast allt eldi á túnfiski í heiminum í dag er áframeldi, þ.e. smár fiskur er veiddur, settur í kvíar og alinn þar upp í markaðsstærð. Þróun á seiðaframleiðslu og notkun á þurrfóðri eru helstu hindranir sem túnfiskeldi þarf að komast yfir til að framtíðarvöxtur og sjálfbærni slíks eldis séu tryggð.

Nýjasta sjávarútvegsskýrsla Glitnis er hin fjórða í röð sjö skýrslna sem áætlað er að komi út á þessu ári.