Arion banki veitti ORF líftækni hf. nýverið langtímafjármögnun að fjárhæð samtals 3,7 milljónir evra, til frekari uppbyggingar félagsins, í samstarfi við Evrópska fjárfestingasjóðinn, European Investment Fund. Það samsvarar um 506,1 milljón íslenskra króna, en í fréttatilkynningu um málið er sagt að markmiðið með fjármögnuninni sé að þróa nýjar Bioeffect vörur, nýjar vörulínur og nýja tækni.

Einnig að fjármagna sókn Bioeffect vörulínunnar inn á nýja markaði, fyrst og fremst Bandaríkin. Þannig leggur lánveitingin grunn að áframhaldandi uppbyggingu, vexti og útflutningi ORF líftækni, en hjá fyrirtækinu og erlendum dótturfélögum þess starfa nú um 75 manns að fjölþættum vísinda-, sérfræði- og framleiðsluverkefnum.

Um samstarf Arion banka og Evrópska fjárfestingarsjóðsins

Arion banki er eina fjármálafyrirtækið á Íslandi sem starfar með Evrópska fjárfestingarsjóðnum að hagstæðri fjármögnun fyrirtækja á borð við ORF líftækni, sem leggja áherslu á nýsköpun, segir jafnframt í tilkynningunni.

Samstarfið gerir bankanum kleift að bjóða litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem hyggjast innleiða hvers kyns nýjungar í starfsemi sinni, hagstæða fjármögnun, hvort sem um er að ræða innleiðingu á nýjum vörum, ferlum eða þjónustu. Markmiðið er að veita fyrirtækjum aðgang að fjármagni á lægri vöxtum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og styðja þannig við nýsköpun hér á landi og örva atvinnulíf, rannsóknir og þróun.

Um ORF Líftækni

ORF Líftækni er forystufyrirtæki á heimsvísu á sviði plöntulíftækni. Fyrirtækið framleiðir sérvirk prótein sem notuð eru í BIOEFFECT húðvörur fyrirtækisins, seld til læknisfræðilegra rannsókna og nýtt í önnur þróunarverkefni fyrirtækisins. ORF hefur þróað tækni til að framleiða slík prótein í byggi, en aðferðin er afrakstur tveggja áratuga vísinda- og þróunarstarfs. BIOEFFECT vörurnar hafa hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir virkni og gæði og þær eru seldar í um 30 löndum.

ORF hefur vaxið hratt á undanförnum árum, einkum í krafti velgengni BIOEFFECT vörumerkisins. Velta fyrirtækisins var ríflega 1,5 milljarðar króna á seinasta ári og um 80% tekna félagsins koma erlendis frá. ORF stefnir á áframhaldandi sterkan vöxt á næstu árum og að leggja þannig sitt af mörkum til útflutnings á íslensku hugviti.