Heildarviðskipti á aðalmarkaði kauphallarinnar námu 1.478 milljónum króna og úrvalsvísitalan, OMXI8, hækkaði um 0,53%.

Bréf Origo báru höfuð og herðar yfir önnur bréf, með 5,77% hækkun, en í aðeins þremur viðskiptum upp á samtals 18,2 milljónir króna. Félagið sendi tilkynningu til kauphallarinnar í gær um betri afkomu síðasta ársfjórðungs en áætlað hafði verið.

Næst á eftir koma Reitir með 1,37% hækkun í 134 milljón króna viðskiptum, og fast á hæla þeirra Síminn með 1,34% hækkun í 99 milljón króna viðskiptum. Tvö önnur félög hækkuðu um yfir 1%.

Mesta veltan var að sama skapi mjög afgerandi, viðskipti með Marel námu 592 milljónum króna og niðurstaðan var 0,52% hækkun. Næsta félag er Sýn með 167 milljón króna viðskipti og 1,28% hækkun, en velta með bréf annarra félaga var undir 150 milljónum.

Þrjú félög lækkuðu, Heimavellir, TM og Hagar, öll um á bilinu 0,8 og 0,9%, en hvorki viðskiptin með Heimavelli né TM náðu 200 þúsund krónum.