Gengi hlutabréfa í upplýsingatæknifyrirtækinu Origo hefur lækkað um 4,3% í 43 milljón króna viðskiptum það sem af er morgni.

Félagið birti ársuppgjör fyrir 2017 í gær, þar sem kom fram að EBITDA félagsins hafi dregist saman milli ára, úr rúmlega milljarði í 928 milljónir. Hagnaðist félagið um 433 milljónir, borið saman við 383 milljónir árið áður.

Finnur Oddsson, forstjóri Origo, sagði í tilkynningu til Kauphallarinnar að reksturinn árið 2017 hafi verið um margt ögrandi, einkum vegna minni búnaðarsölu, styrkingar krónunnar og hækkunar launakostnaðar.

Nýherji og dótturfélögin Applicon og TM Software sameinuðust undir nafninu Origo um síðastliðin áramót. Markmið sameiningarinnar var að skapa alhliða fyrirtæki í upplýsingatækni, ásamt því að einfalda skipulag og auka hagkvæmni í rekstri. Sameinað félag veltir um 15 milljörðum króna.

Stærstu hluthafar Origo eru Vogun hf. (10,97%), Lífeyrissjóður verslunarmanna (10,05%), Birta lífeyrissjóður (9,89%), Kvika banki (8,68%) og The Wellington Trust Company (6,70%).