Uppsett afl allra virkjana landsins í dag nemur um 2.750 megavöttum (MW). Landsvirkjun er langstærsti framleiðandi raforku á Íslandi. Orka náttúrunnar (ON), dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur er einnig stór framleiðandi raforku sem og HS Orka. Fyrir utan byggingu Búðarhálsvirkjunar, sem gangsett var í byrjun árs 2014, hefur lítið verið byggt af nýjum virkjunum hérlendis undanfarin ár. Búðarhálsvirkjun er sjöunda stærsta aflstöð Landsvirkjunar með uppsett afl upp á 95 megavött.

Miðað við þær framkvæmdir sem eru í gangi núna og eru að fara í gang hjá þessum stóru orkufyrirtækjum er útlit fyrir að raforkuframleiðsla muni aukast verulega á næstu árum. Allt að 230 megavatta aukning er í farvatninu hjá Landsvirkjun og HS Orku en Orka náttúrunnar heldur að sér höndum. Þetta þýðir að raforkuframleiðsla landsins mun aukast um 8%.

HS Orka rekur í dag tvær jarðvarmavirkjanir. Annars vegar í Svartsengi og hins vegar Reykjanesvirkjun.  Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir að fyrirhugaðar séu framkvæmdir við Reykjanesvirkjun, þar eigi að bæta við svokallaðri Reykjanesvél númer fjögur sem muni skila 30 megavöttum. Þá segir hann að fyrirtækið hyggist einnig byggja tæplega 10 megavatta vatnsaflsvirkjun í Tungufljóti í Biskupstungum — Brúarvirkjun.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Orku og iðnaði sem fylgdi Viðskiptablaðinu síðast. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .