Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun sameiginlega yfirlýsingu Íslands, Noregs og Liechtenstein á fundi í sameiginlegu EES-nefndinni þann 8. maí þar sem sérstaða Íslands hvað varðar innri raforkumarkað ESB er áréttuð. Greint er frá þessu á vef Stjórnarráðsins .

Í tilkynningunni segir að í sameiginlegu yfirlýsingunni sé undirstrikað að raforkukerfi Íslands sé, eins og stendur, einangrað kerfi og ekki tengt við raforkusæstreng milli Íslands og orkukerfis innri markaðar ESB. Í því ljósi hefði stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans, þ.e. þau sem varða viðskipti og grunnvirki fyrir raforku yfir landamæri, ekki gildi eða neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar.

Auk þess kemur fram að í yfirlýsingunni sé ennfremur áréttað að ákvæði þriðja orkupakkans hafi engin áhrif á full yfirráð EFTA-ríkjanna í EES yfir orkuauðlindum sínum og ráðstöfun þeirra og hagnýtingu. Ákvarðanir um samtengingu raforkukerfa á milli þessara ríkja og orkukerfis innri markaðar ESB væru ávallt á forræði þeirra.

Þá er ítrekað í textanum að yrði samtengingu raforkukerfanna komið á í framtíðinni úrskurðaði Eftirlitstofnun EFTA (ESA) um ágreiningsmál varðandi Ísland en ekki samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER). Það fyrirkomulag væri nú þegar til staðar í tilviki Noregs og Liechtenstein enda væri það í fyllsta samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins.

Loks segir að fulltrúar Evrópusambandsins hafi lesið upp yfirlýsingu á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar um mikilvægi þess að þriðji orkupakkinn yrði samþykktur á öllu EES-svæðinu, það væri forsenda hnökralausra orkuviðskipta á milli ESB-ríkjanna og EFTA-ríkjanna í EES sem þegar eru tengd sameiginlegum orkumarkaði.