Orkuveita Reykjavíkur greiddi Frumherja samtals 5,7 milljarða króna í leigu á rafmagns- og vatnsmælum frá 2001 til 2015. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu .

Mælarekstur Orkuveitunnar var seldur til Frumherja fyrir 590 milljónir króna árið 2001 og leigði fyrirtækið mælana í kjölfarið. Orkuveitan keypti þá hins vegar aftur nýlega fyrir næstum 1,6 milljarða króna.

Greint er frá því í Fréttablaðinu að árlegar greiðslur vegna mælaleigunnar hafi numið á bilinu 360 til 420 milljónir króna á þessu fimmtán ára tímabili. Eignarhald mælanna mun nú færast til Veitna, dótturfélags Orkuveitunnar, sem sér um allan hefðbundinn veiturekstur.