Togararall Hafró bendir til þess að stofnvísitala þorsks hafi lækkað um 15% frá mælingunni 2005, segir greiningardeild Glitnis.

Miðað við síðustu úttekt á stærð þorskstofnsins mátti gera ráð fyrir lækkun á stofnvísitölu. Stofnvísitala ýsu mældist hins vegar há líkt og síðustu þrjú ár.

Líkt og í síðustu stofnmælingu bendir mæling til þess að þorskárgangar 2001 og 2004 séu mjög lélegir, 2003 árgangur frekar lélegur og árgangur 2002 nærri meðallagi. Fyrsta mæling á árgangi 2005 bendir til þess að hann sé ágætlega stór, eða nærri meðallagi síðustu ára.

Ekki er beint samband á milli fyrstu niðurstaða úr togararalli og mats á viðmiðunarstofni þorsks sem notaður er í aflareglu til að reikna kvóta.

Ljóst er þó að þessar niðurstöður eru vísbendingar um að ekki megi búast við því að þorskkvótinn verði aukinn á næstu árum. Ýsustofninn stendur hins vegar mjög vel, segir greiningardeildin,

Taka ber fram að fyrstu niðurstöður úr togararalli eru bráðabirgðaniðurstöður. Enn á til að mynda eftir að aldursgreina þann afla sem fékkst.

Niðurstöðurnar þurfa ekki að þýða að þorskkvóti næsta fiskveiðiárs verði 15% minni en kvóti yfirstandandi árs. Frekari úrvinnsla gagna stendur yfir. Lokaúttekt á niðurstöðum og tillögur Hafró um aflamark fyrir næsta fiskveiðiár verða kynntar í byrjun júní.