Félag framhaldsskólakennara og Félag stjórnenda í framhaldsskólum hafa samið við samninganefnd ríkisins. Forsvarsmenn félaganna tveggja og ríkisins skrifuðu undir samninginn rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi.

Þó samningurinn hafi verið undirritaður þá eiga félagsmenn enn eftir að samþykkja hann. Skemmst er að minnast samnings sem Félag grunnskólakennara skrifaði undir fyrir skömmu en félagsmenn felldu síðan.

„Nú vona ég að félagsmenn samþykki samninginn en þeirra afstaða þarf að liggja fyrir þann 11. maí," er haft eftir Guðríði Arnardóttur, formanni Félags framhaldsskólakennara á vefsíðu Kennarasambands Íslands.

Launaliður samningsins er til samræmis við launalið þeirra kjarasamninga sem stéttarfélög opinberra starfsmanna hafa skrifað undir síðustu mánuði. Samningstíminn er stuttur eða út mars 2019. Samningstíminn er því svipaður og hjá þeim BHM-félögum sem skrifað hafa undir kjarasamninga á þessu ári. Ástæðan fyrir þessum stutta samningstíma er vafalaust sú staðreynda að í desember á þessu ári losna 80 samningar á almenna vinnumarkaðnum.

Í viðauka við samkomulagið er fjallað um ferli breytinga á vinnumati. „Samhliða kjarasamningi liggur fyrir samkomulag við mennta- og menningarmálaráðherra um að 350 til 400 milljónum skuli varið til endurmats á vinnumati þeirra áfanga sem falla undir meginbreytingu á námstíma til stúdentsprófs sbr. dóm félagsdóms frá 22. september 2016," segir á vef Kennarasambands Íslands. „Samkomulagið verður undirritað af mennta- og menningarmálaráðherra og formanni samninganefndar KÍ/framhaldsskóla á næstu dögum."

Kjarasamningur framhaldsskólakennara losnaði 31. ágúst 2016. Ári áður féll gerðardómur vegna nokkurra BHM félaga, sem hafði þau áhrif að kjör kennara hækkuðu í takt við þann úrskurð. Var það vegna þess að í samningi kennara var ákvæði um kjör kennara myndu fylgja launaþróun annarra opinberra stétta. Í kjölfarið á þessu gerði Félag framhaldsskólakennara samkomulag við ríkið í lok október 2016, sem í grófum dráttum fjallaði um friðarskyldu. Framhaldsskólakennarar skuldbundu sig til að fara ekki í verkfall á meðan þetta samkomulag var í gildi. Þetta samkomulag við ríkið féll úr gildi 31. október síðastliðinn og allt síðan hafa samningaviðræður staðið yfir.