Fjölmiðlafrelsi snýst um fleira en réttinn til þess að segja fréttir, þar inn í blandast meðal annars öryggi blaðamanna og frelsi undan ótta, ógnunum og ofbeldi. Hræddir blaðamenn segja síður allt sem segja þarf. Og dauðir blaðamenn segja alls ekki neitt.

Morð á blaðamönnum eru mikið bundin við einstök ófriðarsvæði eða þar sem glæpahringir fara sínu fram. Það er hins vegar athyglisvert að vísbendingar eru uppi um að sókn félagsmiðla kann að hafa grafið undan öryggi blaðamanna, en nú telja ofríkismenn sig síður þurfa meðalgöngu fjölmiðla til þess að koma málstað sínum á framfæri.