Eigendur öryggisfyrirtækisins Öryggismiðstöð Íslands, hafa látið ýmsa fjárfesta og aðila á markaði vita að þeir hafa áhuga á að selja félagið, en það skilaði ríflega 220 milljón króna hagnaði í fyrra.

Meðal eigenda fyrirtækisins eru þeir Hjörleifur Þór Jakobsson, fyrrverandi forstjóri Hampiðjunnar og Olíufélagsins Esso, og Guðmundur Ásgeirsson, í Nesskipum af því er Fréttablaðið greinir frá.

Hagnaður tvöfaldaðist milli ára

Í tilkynningu eigendanna til fjárfesta kemur fram að tekjur félagsins hafi aukist um liðlega fjórðung á árinu 2016, en þær námu þá 3,7 milljörðum króna.

Hagnaður félagsins nálega tvöfaldaðist svo milli ára, en hann nam ríflega 220 milljónum króna í fyrra, en EBITDA hagnaður félagsins batnaði einnig um liðlega 130 milljónir á milli ára og nam 421 milljón á síðasta ári.

Eigendur tengdir Ólafi Ólafssyni

Unaós ehf. er eigandi að 90% í félaginu, en helstu eigendur þess félags eru Guðmundur Ásgeirsson og hjónin Hjörleifur Þór og Hjördís Ásberg, með 30% hvor aðili.

Aðrir hluthafar í Öryggismiðstöðinni eru meðal annars Róbert Aron Róbertsson, en bæði hann og Hjörleifur hafa löngum verið nánir viðskiptafélagar Ólafs Ólafssonar, aðaleiganda Samskipa. Auk þeirra á svo Ragnar Þór Jónsson, forstjóri Öryggismiðstöðvarinnar ríflega 4,3% hlut í félaginu.

Annað stærsta öryggisfyrirtækið

Frestur til að skila inn óskuldbindandi tilboðum í félagið er til 17. maí næstkomandi, en það er Arctica Finance sem hefur umsjón með söluferlinu. Öryggismiðstöðin og Securitas eru stærstu fyrirtækin á markaðnum, en heildarveltan er talin hafa verið á bilinu 8 til 13 milljarða, en ef tekið er mið af aðilum sem reka eigin öryggisgæslu, eins og Isavia og Landspítalanum, þá stækkar markaðurinn um 4 til 5 milljarða.

Bendir Arctica á það í kynningunni að á árunum 2007 til 2015 hafi árlegur meðalvöxtur tekna hækkað um ríflega níu prósent, og hefur velta hennar aukist um meira en 90% frá árinu 2012.