George Osborne fyrrum fjármálaráðherra Bretlands fær miður góða staðsetningu í skrifstofum þingsins, nú þegar hann flytur úr opinberum húsakynnum fjármálaráðuneytisins í Downingstræti númer 11.

Hótaði neyðarfjárlögum með skattahækkunum og niðurskurði

Osborne barðist fyrir áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu og sagði meðal annars í baráttunni fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna nauðsynlegt að setja á neyðarfjárlög með hærri sköttum og verulega skertum útgjöldum strax og útganga yrði samþykkt ef svo færi.

Í kjölfar afsagnar David Cameron sem forsætisráðherra þá var hann einn þeirra ráðherra sem þurfti að taka pokann sinn þegar Theresa May tók við leiðtogahlutverkinu í Íhaldsflokknum og forsætisráðherratitlinum.

Aðstaðan veltur á stöðu og virðingu þingmanna

Ólíklegt er að það sé tilviljun að nú þegar hann flytur í Portcullis, skrifstofuhúsnæði þingsins með aðsetur sitt fái hann ekkert sérlega skemmtilega skrifstofu, en hvar þeir fá aðstöðu hefur mikið með stöðu þingmanna og völd að segja í rætnum stjórnmálum Bretlands.

Samkvæmt heimildum vefsíðunnar order-order.com er þetta séð sem niðurlæging af hálfu nýju stjórnarinnar, þar sem skrifstofan sé venjulega gefin til þingmanna með miðlungsstöðu sem ekki hafa verið nema nokkur ár á þingi.

Gamla skrifstofa Boris Johnson, er við hliðina á ljósritunarvélinni

„Þetta er léleg skrifstofa. Virkileg, virkilega ömurleg fyrir fyrrum fjármálaráðherra. Alan Duncan og David Davis til dæmis hafa skrifstofur í húsinu með stigum þar sem þær ná yfir tvær hæðir,“ segir viðmælandi síðunnar.

Skrifstofan er við hliðina á ljósritunarstofunni og er útsýnið úr henni út í bakrými hússins í staðinn fyrir út yfir Big Ben turninn og Thames ána. Þetta var áður skrifstofa Boris Johnson sem nú tekur við sem utanríkisráðherra.