Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, hafa óskað eftir því að aukafundur verði haldinn í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sem fyrst vegna ítrekaðra bilana í skólpdælustöð við Faxaskjól og losunar skólps í sjó í tengslum við viðgerðir af völdum þeirra.

Samkvæmt fréttatilkynningu óska borgarfulltrúarnir eftir því að á fundinum verði fjallað um eftirfarandi atriði og önnur sem kunna að koma að gagni við að upplýsa stjórn Orkuveitunnar um málið:

  • Orsakir bilana í dælustöð við Faxaskjól og hvenær áætlað er að viðgerðum ljúki.
  • Magn skólps sem ætla má að losað hafi verið í sjó vegna umræddra bilana.
  • Lýsing á viðgerðum sem fram hafa farið vegna umræddra bilana, þ.e. 13.-20. júní og 26. júní-5. júlí sem og síðar.
  • Samskipti milli Veitna, Orkuveitu Reykjavíkur og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna málsins.
  • Vinnureglur hjá Veitum vegna slíkra atburða og verklag varðandi upplýsingagjöf til almennings þegar losa þarf skólp í sjó vegna viðhalds eða bilana.
  • Yfirlit yfir niðurstöður gerlamælinga Heilbrigðiseftirlitsins á svæðinu á umræddu tímabili.
  • Hreinsunarstarf í fjörunni við Faxaskjól og Ægisíðu.
  • Yfirlit annarra bilana sem orðið hafa í skólpdælukerfinu undanfarin þrjú ár og magn skólps sem ætla má að losað hafi verið í sjó vegna þeirra.