Kröfuhafar United Silicon samþykktu í dag að óskað yrði eftir framlengingu á greiðslustöðvun félagsins svo hægt verði að finna lausn á vanda þess. Þetta segir Helgi Jóhannesson hæstaréttarlögmaður í samtali við mbl.is. Helgi er aðstoðarmaður skuldarans á greiðslustöðvunartíma.

Í fréttinni segir að beðnin verður tekin fyrir á mánudaginn, kl. 14. Meðal kröfuhafa eru Arion banki, Íslenskir aðalverktakar, Landsvirkjun, Reykjanesbær og ítalska fyrirtækið Tenova sem seldi United Silicon ljósbogaofninn.

Héraðsdómur Reykjaness veitti stjórn United Silicon, 14. ágúst síðastliðinn, heimild til greiðslustöðvunar sem miðar að því að ná bindandi nauðasamningum við lánadrottna.

Ástæðan eru erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík sem rekja má til síendurtekinna bilana í búnaði sem valdið hafa félaginu miklu tjóni. Vegna þessara rekstrarerfiðleika var fyrirsjáanlegt að félagið myndi að óbreyttu eiga erfitt með að standa í skilum við lánardrottna og yfirvofandi eru aðgerðir einstakra kröfuhafa ef ekki verður brugðist við án tafar. Nýfallinn gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV eykur enn á þessa óvissu en samningar um uppgjör þeirra skulda sem þar var tekist á um hafa ekki borið árangur.