Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur sent Fjármálaeftirlitinu erindi þar sem óskað er eftir þeim gögnum og upplýsingum sem að eftirlitið hefur um kaupendur á tæplega 30% hlut á Arion banka. Þetta staðfestir Óli Björn Kárason, formaður nefndarinnar í samtali við Viðskiptablaðið. Þetta var samþykkt á fundi nefndarinnar í dag.

„Þetta er gert á grunni 51. greinar þingskapalaga, þar sem þingnefndir geta óskað eftir slíkum upplýsingum einnig þeim sem að skuli njóta trúnaðar,“ segir Óli Björn.

Spurður út í ástæðu þess að efnahags- og viðskiptanefnd óski eftir þessum upplýsingum segir Óli Björn: „Við viljum fá upplýsingarnar þannig að við áttum okkur á hverjir þessir kaupendur eru. Það er mikilvægt fyrir alla að menn viti hverjir eru, ekki bara á Arion banka heldur líka höfuð á íslenskum fjármálafyrirtækjum.“