DiCaprio er einn allra ástsælasti leikari kvikmyndasögunnar og á gríðarlega stóran aðdáendahóp um allan heim. Á veraldarvefnum hafði mikið grín verið gert að því að hann hefði aldrei unnið Óskarsverðlaun og þótti það hreint út sagt með ólíkindum. Fjölmargir sérfræðingar og áhugamenn hafa skrifað langar greinar um meint „samsæri“, vanhæfni Óskarsakademíunnar sem velur sigurvegara og fleira. Á endanum þurfti DiCaprio að berjast við bjarndýr og ganga í gegnum helvíti á jörð til að fá styttuna langþráðu.

Þrisvar áður hafði DiCaprio verið tilnefndur sem besti leikarinn í aðalhlutverki á Óskarsverðlaunahátíðinni. Það var ekki nóg með að DiCaprio skyldi aldrei hafa unnið Óskarsverðlaunin í þau skipti sem hann var tilnefndur. Margir virtir kvikmyndagagnrýnendur vilja meina að hann hefði átt skilið að fá mun fleiri tilnefningar og að það sé með ólíkindum hve oft akademían leit framhjá honum.

Erfitt er að segja til um hvers vegna hann hafði ekki unnið Óskar þar til nú um mánaðamótin. Kannski voru keppinautar hans einfaldlega betur að verðlaununum komnir. Kannski hafði akademían eitthvað á móti honum. Kannski var hann bara ekki jafn góður eins og svo margir vildu meina. Í öllu falli er Óskarinn loksins kominn í hús hjá DiCaprio.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .