Greiningardeildir Íslandsbanka og Arion banka spá hvorar tveggja 0,2% hækkun verðvísitölu neysluverðs í marsmánuði og því jafnframt að verðbólga hjaðni úr 1,9% niður í 1,8%.

Greining Íslandsbanka segir jafnframt að verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafi batnað frá síðustu spá þeirra, enda geri þeir nú ráð fyrir sterkari krónu en áður á spátímanum. Jafnframt gera þeir ráð fyrir minni hækkun vísitölu neysluverðs og minni hækkun launa á þessu ári.

Spá Arion banka er á sömu leið og er niðurstaða þeirra beggja að verðbólgan hjaðni enn þegar líður á árið og fari í 1,5% eða því sem næst á næstu mánuðum. Segir Íslandsbanki að hún nái því marki um árslok meðan Arion banki segir ársverðbólguna muni enda í 1,6%.

Áhrif H&M inn á markað til lækkunar

Greiningardeildirnar eru ekki alveg samhljóma um hver verðþróun á fata- og skóverði, Íslandsbanki segir að sá liður muni hækka í mars, enda hafi þeim komið á óvart hve lítil hækkun hafi verið þar í febrúar. Arion banki segir hækkunina verða töluvert minni en oft áður á þessum tíma ársins, en þeir nefna einnig áhrif af komu H&M inn á markaðinn.

Báðar greiningadeildirnar nefna boðaða 10% verðlækkun IKEA sem ein af röksemdunum fyrir því að húsgögn og heimilisbúnaður eigi eftir að lækka í verði í mánuðinum sem og eldsneytisverð. Íslandsbanki segir auk þess að raftæki eigi eftir að lækka.

Spá mismikilli húsnæðisverðshækkun

Hins vegar eru þær óssamála um verðþróun flugfargjalda, Arion banki telur að þau eigi eftir að hækka þó það verði minni háttar, meðan Íslandsbanki segir að þau lækki um svipað hlutfall.

Einnig eru þær ekki alveg samhljóma um hve mikið húsnæðisverð hækki í mánuðinum, Arion banki segir hana nema 1,3% meðan Íslandsbanki segir hækkunina verða 1,5%.

Spá 3,3% verðbólgu árið 2019

Íslandsbanki segir svo að verðbólga verði undir markmiði fram á seinni hluta ársins 2018, en hún fari vaxandi á því ári þó, og fari yfir 2,5% verðbólgumarkmið á þriðja ársfjórðungi ársins og verði yfir því fram til ársloka 2019.

Spá þeir 2,5% meðalverðbólgu á næsta ári en 3,3% verðbólgu að jafnaði árið 2019.