Ársfjórðungsuppgjör Össurar sýnir að tekjur fyrirtækisins jukust á fyrstu þremur mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra úr 114 milljónum Bandaríkjadala í 131 milljón. Á sama tíma jókst hagnaðurinn úr 71 milljón í 82 milljónir dala, sem nemur um 8,8 milljörðum íslenskra króna.

Þó dregst hagnaðarhlutfall aðeins saman milli áranna, eða um eitt prósentustig og nam það 62% af sölunni í janúar, febrúar og mars. EBITDA félagsins nam 20 milljón dölum, eða 16% af sölu, sem er sama hlutfall og fyrir ári þegar EBITDA félagsins nam 19 milljónum dala.

Styrking krónunnar dró úr hagnaði

Össur segir styrkingu krónunnar hafa dregið úr áhrifum bættrar afkomu af rekstri félagsins, ásamt tímabundnum áhrifum af því að félagið hefur verið að bæta við sig eignum. Hagnaðurinn reiknaður í Bandaríkjadölum jókst um 13% milli áranna, hins vegar hafi lausafé minnkað úr 16 milljónum eða 14% af allri sölu niður í 10 milljónir eða 7% af sölunni.

Arðgreiðslur félagsins námu 0,12 dönskum krónum á hlut, sem jafngildir um 15% af hagnaði félagsins árið 2016, en þær voru greiddar út í lok mars. Í apríl var lokið við uppkaup eigin bréfa félagsins, og var hlutaféð fært niður um tæplega 6 milljón hluti, svo nú stendur heildarhlutaféð í 437 milljón hlutum.

Jón Sigurðsson, forstjóri fyrirtækisins, segist ánægður með árangur ársfjórðungsins, sé það haft í huga að fyrsti ársfjórðungurinn sé alla jafna veikasta tímabilið í sölu. En jafnframt segir hann að þeir sjái góðar sölutölur frá ríkjum Ameríku og að vel gangi að samþætta ný félög sem hafa verið keypt, Touch Bionics og Medi Prosthetics inn í starfsemina.