Össur hf. hagnaðist um 35 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 3,8 milljörðum íslenskra króna, fyrstu níu mánuði ársins 2017. Hagnaður félagsins á þriðja ársfjórðungi 2017 nam 11 milljónum Bandaríkjadala, eða 1,2 milljörðum íslenskra króna, sem nemur 8% af sölu að því er fram kemur í uppgjöri árshlutauppgjöri fyrirtækisins.

Sala á þriðja ársfjórðungi (Q3) 2017 nam 139 milljónum Bandaríkjadala (15 milljörðum íslenskra króna) sem samsvarar 5% söluvexti og 3% innri vexti, hvort tveggja mælt í staðbundinni mynt.

Selt fyrir 45 milljarða íslenskra króna

Sala á fyrstu níu mánuðum ársins (9M) 2017 nam 415 milljónum Bandaríkjadala (45 milljörðum íslenskra króna) sem samsvarar 9% söluvexti og 4% innri vexti, hvort tveggja mælt í staðbundinni mynt. Stoðtækjarekstur óx um 5% á meðan vöxtur í spelkum og stuðningsvörum var flatur í fjórðungnum.

EBITDA í Q3 2017 að teknu tilliti til einskiptisliða nam 25 milljónum Bandaríkjadala (2,6 milljörðum íslenskra króna) eða 18% af sölu og óx um 4% mælt er í staðbundinni mynt.

EBITDA nam 7,8 milljörðum íslenskra króna

Fjárfestingar í langtíma rannsóknar- og þróunarverkefnum og óhagstæðar gengishreyfingar settu svip sinn á framlegð í fjórðungnum. EBITDA á 9M 2017 að teknu tilliti til einskiptisliða nam 73 milljónum Bandaríkjadala (7,8 milljörðum íslenskra króna) eða 17% af sölu og óx um 8% mælt er í staðbundinni mynt.

Jón Sigurðsson, forstjóri segir að fyrstu merki breytinganna sem fyrirtækið hafi tilkynnt um í september til að auka á skilvirkni og arðsemi félagsins komi til skila á næsta ári. „Söluvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins er einna helst drifinn áfram af stoðtækjarekstri félagsins sem hefur vaxið umfram áætlaðan markaðsvöxt,“ segir Jón.

„Þá erum við einnig ánægð að sjá hátæknivörur okkar vegna vel, bæði stoðtækjum og spelkum og stuðningsvörum, svo sem RHEO KNEE® og Unloader One®.“