Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segir að áður en farið verði í endurskoðun vatnalaganna, þurfi að ganga frá skipun nefndar, sem Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi iðnaðarráðherra, gaf loforð um á sínum tíma. Nefndinni er ætlað að samræma vatnalögin og önnur lagaákvæði sem varða vatnsréttindi. Vatnalögin taka, að óbreyttu, gildi hinn 1. nóvember næstkomandi. Össur útilokar ekki að gildistökunni verði frestað í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Miklar deilur urðu um afgreiðslu vatnalagafrumvarpsins á Alþingi vorið 2006. Málið snerist um eignarhald og nýtingu á vatni.


Eftir mikið málþóf þáverandi stjórnarandstöðu, Samfylkingar, VG og Frjálslynda flokksins, var frumvarpinu hleypt í gegnum þingið á þeim forsendum meðal annars að lögin tækju ekki gildi fyrr en að þingkosningum loknum, eða hinn 1. nóvember 2007. Stjórnarandstaðan vildi með því kaupa sér tíma til þess að breyta lögunum kæmist hún til valda. Hvergi er hins vegar fjallað um lögin í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur sagt að málið væri á forræði iðnaðarráðherra, Össurar Skarphéðinssonar.


Sá síðarnefndi segir, þegar hann er spurður hvernig hann ætli að leiða málið til lykta: "Það liggir í augum uppi að skipun nefndarinnar var loforð gagnvart stjórnarandstöðu, hver sem hún yrði. Það verður að efna það. Að minnsta kosti ætla ég ekki að bera þá ábyrgð að hafa svikið Alþingi. Það hlýtur að vera eitt af aðalatriðum framvindu svona máls, sem deilur hafa staðið um, að allar forsendur sáttarinnar verði efndar," segir hann í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í dag.


Össur segir einnig í viðtalinu að hann telji að sátt sé að nást um að einokunarþáttur orkumarkaðarins, það er að segja flutningur og dreifing, verði í félagslegri meirihlutaeigu. Hann vill skilja á milli einokunarþáttarins annars vegar og þess hluta orkumarkaðarins hins vegar sem er í samkeppni. Í ráðuneytinu er nú unnið að undirbúningi lagafrumvarps þess efnis. Hann vill á sama tíma tryggja að þær orkulindir sem séu í almannaeigu verði það áfram. Sömuleiðis vill hann að eigendurnir fái gjald fyrir tímabundinn nýtingarrétt, og er því hlynntur auðlindagjaldi.
Össur er í viðtalinu einnig spurður út í stjórnarsamstarfið. Hann segir sína reynslu af því góða. Samfylkingin komi öflug inn í það og sé vel undirbúin. "Við erum auðvitað allt öðruvísi flokkur en Framsóknarflokkurinn sem í lokin var nánast að geispa golunni og æmti hvorki né skræmti sama hvernig á honum var stappað."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.