Antony Scaramucci, sem er hluti af ráðgjafateymi Donald Trump, sagði að „fólk þyrfti ekki að missa sig,“ vegna ummæla verðandi forseta Bandaríkjanna um NATO, fríverslun og Evrópusambandið. Um málið er fjallað á vef CNN Money .

„Hann segir hluti sem hringja viðvörunarbjöllum. Sumir hlaupa í hringi og kveikja í hári sínu, það er óþarfi,“ sagði Scaramucci á fundi Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) í Davos. Hann hrekur einnig þá staðhæfingu að Trump komi til með að hefja viðskiptastríð við Kínverja.

„Þegar Trump segir að NATO sé úrelt, þá halda allir að hann vilji eyðileggja NATO. En það er ekki meiningin hjá Trump. NATO virkar en það eru hlutir sem við þurfum að breyta - og það eru sumir hlutir - sem eru úreltir að mati Trump,“ bætir Scaramucci við. Hann segir að tjáningarmáti yfirmanns síns sé ef til vill óhefðbundinn, en að mati kjósenda verðandi forseta sé hann einnig „hressandi.“