Forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Unnur Gunnarsdóttir, segir að Kaupþing lúti ekki eftirliti stofnunarinnar og heyri ekki undir lög um fjármálafyrirtæki, sem takmarka kaupaukagreiðslur, svokallaða bónusa, við 25% af árslaunum viðkomandi starfsmanns.

Menning sem ekki þekkist í íslensku þjóðfélagi

„Það er greinilegt að fólki finnst að það eigi að vera einhverjar takmarkanir á þessu, og ég held að þingmenn séu að skoða það, þó að þeir nái kannski ekki utan um þetta afturvirkt,“ segir Unnur í frétt á mbl.is .

„En þetta er einhver menning sem við þekkjum annars ekki í íslensku þjóðfélagi.“

Fylgst með Kaupþing þó falli ekki undir lögin

Bendir Unnur á að þótt FME hafi ekki virkt eftirlit með félaginu sé samt sem áður fylgst með því, en félagið á 87% hlut í Arion banka.

Þó bankinn sé stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða þá er eignarhluturinn nægilega lítill hluti eignasafns Kaupþings að félagið uppfyllir ekki að vera svokallað „eignarhaldsfélag á fjármálasviði,“ en sem slíkt myndi það heyra undir lögin sem takmarka bónusgreiðslur til starfsmanna þess.

1,5 milljarða bónusgreiðsla gagnrýnd

Tillagan um ríflega 1,5 milljarða bónusgreiðslu til starfsmanna Kaupþings, að því gefnu að ákveðnum markmiðum um sölu á hlut fyrirtækisins í Arion banka sé uppfyllt, hefur verið gagnrýnt í íslenskri þjóðmálaumræðu, sendi til að mynda BSRB frá sér harðorða yfirlýsingu þess efnis.

Að lokum segir Unnur: „Ef félagið selur eignir úr safninu en heldur bankanum áfram þurfum við að fylgjast grannt með hvenær og hvort það fellur undir lögin.“