Eignir norska olíusjóðsins gætu rýrnað um því sem jafngildir heilum fjárlögum norska ríkisins, ef slaki verður í alheimshagkerfinu í heilt ár. Þetta segir Yngve Slyngstad, forstjóri norska olíusjóðsins.

Í viðtali við norska vefinn E24 greinir Slyngstad frá því að rekstur olíusjóðsins hafi verið mjög góður á síðastliðnum árum og arðsemin mikil. Hins vegar geti komið erfiðir tímar.

Slyngstad bendir á að á árinu 2008 hafi verðmæti eigna norska olíusjóðsins lækkað um 23,4%, eða um 633 milljarða norskra króna.